Íslendingar voru á ferðinni með sínum liðum í Svíþjóð og Noregi í dag.
Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörninni hjá Djurgarden í 3-2 tapi gegn Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Djurgarden er í næstneðsta sæti deildarinnar, með aðeins 3 stig eftir sex leiki.
Í sömu deild var Íslendingaslagur á milli Örebro og Vaxjö. Fyrrnefnda liðið vann öruggan 4-1 sigur. Berglind Ágústsdóttir lék allan leikinn í vörninni hjá Örebro. Cecilía Rán Rúnarsdóttir var varamarkvörður liðsins. Andrea Mist Pálsdóttir var í byrjunarliði Vaxjö og spilaði tæpa klukkustund. Örebro er í fimmta sæti, með 10 stig eftir sex leiki. Vaxjö er á botninum, með aðeins 1 stig.
Diljá Ýr Zomers var allan tímann á varamannabekk Hacken í 3-0 sigri gegn Eskilstunda í sömu deild. Hacken er í öðru sæti deildarinnar, með 13 stig eftir sex leiki.
Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Arna-Björnar í 4-1 tapi gegn Klepp í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar.