Valur vann nauman sigur á nýliðum Leiknis á heimavelli í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld.
Fyrri hálfleikur var fremur rólegur. Patrick Pedersen fékk gott færi snemma leiks en Guy Smit varði frá honum. Staðan í hálfleik var markalaus.
Það stefndi í það að Leiknismenn næðu í frábært stig gegn Íslandsmeisturunum þegar Pedersen skoraði sigurmarkið eftir fyrirgjöf Johannes Vall. Markið kom þegar um fimm mínútur lifðu leiks. Þess má geta að Valsmenn unnu einnig síðasta heimaleik sinn með því að skora sigurmark seint í leiknum.
Lokatölur 1-0 og Valur fer upp að hlið Víkinga á toppi deildarinnar. Bæði lið eru með 13 stig. Leiknir er í sjötta sæti með 5 stig.