Víkingur vann útisigur á KA í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Dramatík var í lok leiks.
Leikið var á Dalvík vegna slæmra vallaraðstæðna á Greifavellinum á Akureyri. Leikurinn var markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir eftir um klukkutíma leik. Þá skoraði hann af stuttu færi eftir sendingu frá Júlíusi Magnússyni.
Seint í uppbótartíma leiksins fengu heimamenn vítaspyrnu. Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem hefur verið frábær á leiktíðinni, klúðraði þó vítinu. Þess má geta að hann klúðraði einnig víti í síðasta leik gegn Keflavík. Grátlegt fyrir KA. Lokatölur 0-1 fyrir Víking.
Víkingur er nú á toppi deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. KA er í þriðja sæti með 10 stig.