Hansi Flick, stjóri Bayern Munchen, hefur gefið í skyn að hann nálgist landsliðsþjáfarastöðuna hjá Þýskalandi.
Flick var aðstoðarþjálfari Joachim Löw hjá landsliðinu á árunum 2006 til 2014. Sá síðarnefndi mun stíga til hliðar eftir Evrópumótið í sumar. Flick hefur verið sterklega orðaður við hans stöðu. Hann hefur tilkynnt Bayern það að hann sé á förum að tímabili loknu.
,,Ég hef talað við þýska knattspyrnusambandið og allir vita hvað mér finnst um landsliðið. Það þarf þó að hafa í huga smáatriðin þegar kemur að svona löguðu. Þegar allt er klárt verður hægt að koma með tilkynningu stuttu síðar,“ sagði Flick.
Eftir að í ljós kom að Flick færi frá Bayern hefur hann verið orðaður við nokkur félagslið í Evrópu, þar á meðal Barcelona. Nú er hins vegar útlit fyrir að hann muni taka við þýska landsliðinu.