Arsenal og Marseille eru sögð hafa samið um kaupverð á miðjumanninum Matteo Guendouzi.
Guendouzi spilaði reglulega undir stjórn Unai Emery hjá Arsenal en eftir að Mikel Arteta tók við fór tækifærum hans fækkandi. Hann hefur verið á láni hjá Hertha Berlin á þessu tímabili. Arteta sér ekki not fyrir hann þegar lánssamningnum er lokið.
Þessi 22 ára gamli Frakki er án efa hæfileikaríkur en hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki alltaf með hausinn rétt skrúfaðan á. Það er meðal annars eftirminnilegt þegar hann tók Neal Maupay, leikmann Brighton, hálstaki í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Kaupverðið sem Marseille og Arsenal hafa komið sér saman um er talið vera um 20 milljónir evra. Það er því útlit fyrir að Guenzouzi muni reyna fyrir sér í heimalandinu á næstu leiktíð.