Um hálftólfleytið í dag var tilkynnt um brennt barn eftir opinn varðeld. Sjúkrabíll flutti barnið á slysadeild til skoðunar og slökkvilið sá um að slökkva varðeldinn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir einnig frá því að snemma í morgun var brotist inn í matarvagn í hverfi 105 og stolið þaðan kassa af jarðaberjum og bláberjum, greiðsluposa og nokkrum pokum af kaffi. Lögreglan hefur engar vísbendingar um hver gæti hafa verið þarna að verki.
Í hádeginu var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í hverfi 105. Maður fannst sofandi inni í íbúðinni og var hann handtekinn, grunaður um innbrot, og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Á þriðja tímanum í dag var tilkynnt um mann sem stakk annan mann með sprautunál í magann. Gerðist þetta í miðbænum. Gerandinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang en hann fannst stuttu síðar og var handtekinn.