Guðbjörn, faðir Sigrúnar Lilju Guðbjörnsdóttur, sem er 75 ára gamall, fékk stórt heilablóðfall fyrir tveimur árum og hefur síðan þá þurft að notast við hjólastól. Til að komast úr stólnum þarf hann hjálpartæki sem heitir Sara Steady (sjá meðfylgjandi mynd) en það hefur reynst honum ómetanleg hjálp við erindi utan stofnunarinnar sem hann dvelst á. En nýjar reglur Hrafnistu um notkun hjálpartækisins hafa sett Guðbjörn í mikinn vanda.
Sigrún fór yfir málið í færslu í Facebook-hópnum Góða systir og sendi DV textann samkvæmt beiðni:
„Þetta er pabbi minn. Hann er 75 ára. Hann fékk mjög stórt heilablóðfall fyrir tveimur árum síðan sem varð til þess að hann er bundin við hjólastól og er komin á stofnun. Til að komast út stólnum sínum þarf hann þessa græju sem kölluð er Sara Steady eða saran meðal þeirra sem þurfa að nota hana. Pabbi minn þarf stundum að fara út af stofnuninni sem hann býr á t.d til tannlæknis eða kaffihús eða matrarboð eða annað sem hver önnur manneskja langar að taka sér fyrir hendur. Þetta er þessvegna einhverskonar tvenna saran og hjólastóllinn. Hingað til hefur þetta ekki verið vandamál; við höfum fengið söruna með þegar við höfum þurft á henni að halda, en það eru nýjar reglur hjá Hrafnistu þar sem hann býr; saran er ekki lánuð út úr húsi. Og þar sem þetta eru nýjar reglur (sem við höfðum ekki verið upplýst um áður) fór það svo að pabbi minn fór til tannlæknis í dag, komst ekki í stólin hjá tannlækninum og varð því að vera í stólnum sínum á meðan gert var við tennur hans. Það var mjög óþægilegt bæði fyrir pabba og tannlæknin. Þetta setur okkur sem fjölskyldu í mikinn vanda; við höfum getað komið pabba inn í slyddujeppa og farið með hann í ferðir t.d í kaffihús, matarboð, afmæli eða annað , með því að nota söruna. En það verður semsagt ekki hægt núna; við þurfum að kaupa hjólastólaleigubíl í hvert skiptið. Eitt matarboð kostar þá í ferðir á bilinum 25-30 þúsund krónur í ferðir. Ég vil benda á að Sara Steady er ekki hægt að kaupa né leigja hér á landi. Svona græja er til sölu í Bretlandi og kostar þar 2034 pund sem reiknast um 351 þúsund íslenskar krónur. Hvert get ég snúið mér, hver er réttur pabba í þessu máli. Þess má geta að pabbi er gjörsamlega miður sín eftir þessa útreið, síðustu orð hans til mín í dag voru; „Ég er víst ekki manneskja““
„Ég vil bara fá viðurkenningu á því að Sara og hjólastóllinn séu nokkurs konar tvenna. Fyrst stóllinn sé hans sé Sara það líka,“ segir Sigrún í stuttu spjalli við DV. Eins og staðan er núna getur Guðbjörn ekki sinnt erindum utandyra án þess að leggja út í mikinn kostnað og hinn kosturinn er sá að kaupa þetta hjálpartæki á yfir 350 þúsund krónur.
Sigrún óskar þess að Hrafnista breyti þessum reglum svo faðir hennar geti notað hjálpartækið mikilvæga þegar þörf er á.