Í Nice fór fram leikur sem enginn knattspyrnuáhugamaður á Íslandi mun gleyma og líklega ekki á Englandi heldur. Í 16 liða úrslitum EM árið 2016 á fyrsta stórmóti Íslands voru væntingarnar til íslenska liðsins ekki miklar, liðið fór pressulaust inn í leikinn og hafðu engu að tapa. Englendingar byrjuðu vel og Wayne Rooney skoraði mark úr vítaspyrnu snemma leiks.
Adam var þó ekki lengi í Paradís en Ragnar Sigurðsson jafnaði skömmu síðar og þá fóru Englendingar á taugum. Íslenska liðið skoraði svo sigurmark leiksins á 18. mínútu þegar Kolbeinn Sigþórsson skoraði og tryggði Íslandi miða í 8 liða úrslitin. Magnað kvöld í Hreiðrinu í Nice þar sem mikill fjöldi Íslendinga var á svæðinu, kvöld sem aldrei gleymist.
Tapið er enn í hausnum á Englandi og það kemur vel fram í nýju viðtali Gary Neville við Harry Kane framherja Tottenham. Kane var í byrjunarliði Englands í leiknum og Neville var aðstoðarþjálfari liðsins.
„Leikurinn við Ísland var furðulegur, mér fannst við vera á góðum stað sem hópur. Við gerðum ekki frábæra hluti í riðlinum, við vorum þéttur hópur. Þetta var þannig leikur að augnablikið fór frá okkur, við náðum ekki að brjóta þá niður,“ sagði Kane í viðtalinu við Neville.
Kane segir að krafan hafið verið á sigur Englendinga. „Þessi leikur er enn í hausnum á okkur, þetta var tækifæri. Ég ætla ekki að gera lítið úr Íslandi, við gerðum kröfu á okkur að vinna.“
„Þegar við vorum 2-1 undir, þá var eins og við værum búnir að tapa. Við náðum aldrei að snúa þessu okkur í hag, um leið og við vorum undir þá var furðuleg stemming á vellinum. Við gáfumst ekki upp samt.“
Viðtalið má sjá hér að neðan.