Lionel Messi leikmaður Barcelona þarf ekki að mæta til vinnu í dag og á morgun og hefur fengið að fara í sumarfrí á undan öðrum leikmönnum félagsins.
Sá möguleiki er fyrir hendi að Messi hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Börsunga en liðið mætir Eibar um helgina.
Samningur Messi við Barcelona er á enda í sumar en þó er talið að hann muni skrifa undir nýjan samning.
Börsungar ákváðu að leyfa Messi að fara í sumarfrí svo hann geti safnað kröftum fyrir Copa America sem fram fer í sumar, þar verður Messi í fullu fjöri með Argentínu.
Barcelona á ekki lengur möguleika á að vinna titilinn og því fékk Messi að skella sér í sumarfrí.