Öryggismálanefndin samanstendur af leiðtogum hinna ýmsu stofnana, þar á meðal hersins, og ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Hún samþykkti einróma að „fallast á tillögur Egypta um skilyrðislaust vopnahlé,“ að því er segir í tilkynningu frá ísraelsku ríkisstjórninni.
Fjölmiðlar í Líbanon segja að Hamas, hryðjuverkasamtökin sem fara með völd á Gasa, styðji tillögu Egypta einnig.
Um leið og Ísraelsmenn staðfestu að þeir sættust á vopnahléstillögu Egypta fóru loftvarnarsírenur í gang í mörgum bæjum í suðurhluta landsins og vöruðu við nýrri flugskeytaárás frá Gasa. Palestínskir fjölmiðlar segja að ísraelskar herþotur hafi gert árásir á skotmörk á Gasa í kjölfarið.
Ákvörðun Ísraelsmanna um að samþykkja vopnahlé var tekin eftir vaxandi þrýsting frá Bandaríkjunum.
Átökin að þessu sinni eru þau hörðustu á milli hinna stríðandi aðila síðan í stríðinu á Gasa 2014. Eins og svo oft áður er enginn sigurvegari eftir átökin. Loftárásir Ísraelsmanna á Gasa hafa valdið miklu tjóni og skert hernaðargetu Hamas en samt sem áður hafa samtökin getað haldið áfram að skjóta eldflaugum á Ísrael. Að minnsta kosti 232 létust á Gasa og 12 í Ísrael.