Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hélt Eurovision og prófkjörspartý á skemmtistaðnum B5 í kvöld.
Um þessar mundir sækist Áslaug eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og er því á fullu í prófkjörsbaráttu. Í kvöld hélt hún teiti með þeim sem hafa unnið með henni í þeirri baráttu.
Staðurinn sem varð fyrir valinu hefur vakið áhuga margra, en teitið fór fram á B5. Áhrifavaldurinn Birgitta Líf Björnsdóttir keypti staðinn á dögunum, en hún deildi myndbandi frá vettvangi á Instagram.
B5 hefur síðustu ár verið einn allra vinsælasti skemmtistaðurinn í Reykjavík, en vegna heimsfaraldursins var honum lokað. Það breyttist þó með umræddum kaupum Birgittu, en hann hefur þó ekki verið opnaður almenningi aftur. Þó virðist vera sem Birgitta hafi opnað fyrir Áslaugu í kvöld.
Áslaug deildi myndbandi Birgittu á sína Instagram síðu og skrifaði:
„Gaman að fá boð að hitta ungt fólk og ræða pólitíkina.“
Hér má sjá skjáskot úr Instagram Story hjá Birgittu Líf.