Aron Elís Þrándarson lék með OB í útisigri liðsins í Danmörku í kvöld. Þá var Bjarki Steinn Bjarkason í hópnum hjá Venezia sem komst úrslit umspilsins í Serie B á Ítalíu.
Aron Elís lék allan leikinn fyrir OB í 1-2 sigri gegn Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni. Leikið var í neðri hluta deildarinnar (e. relegation group). OB er í þriðja sæti af sex liðum í hlutanum þegar einn leikur er eftir. Þeir eru ekki í neinni hættu á að falla og geta ekki heldur náð Evrópusætinu sem efsta sæti riðilsins veitir.
Bjarki Steinn sat allan tímann á varamannabekk Venezia þegar liðið komst í úrslitaleik umspilsins í Serie B á Ítalíu. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Lecce í seinni leik undanúrslitanna í kvöld. Fyrri leikurinn fór 1-0 fyrir Venezia og komast þeir því áfram samanlagt. Liðið mætir líklega Cittadella í úrslitunum. Þeir leiða 3-0 gegn Monza eftir fyrri leikinn í þeirra undanúrslitaeinvígi. Þess má geta að Óttar Magnús Karlsson er einnig á mála hjá Venezia en er meiddur.