Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur dæmt tvo leikmenn í fimm leikja bann vegna ummæla um leikmann í liði andstæðinga sinna. Ummælin fela í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði.
,,Pólska drasl“
Í öðrum úrskurðinum er Viktor Smári Elmarson dæmdur í bann fyrir að hafa kallað andstæðing sinn ,,pólskt drasl.“ Aga- og úrskurðardnefndin segir ummælin fela í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði varðandi þjóðernisuppruna. Ummælin áttu sér stað þegar hann lék æfingaleik með Magna gegn Aftureldingu á Dalvíkurvelli. Hann er hins vegar leikmaður FH. Viktor, sem er fæddur árið 2002, var ekki skráður í Magna þegar leikurinn fór fram en félagið fær þó 100 þúsund króna sekt.
Hér er niðurstöðukaflinn í úrskurði um mál Viktors í heild sinni:
„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, m.t.t. þeirra gagna sem aflað hefur verið í málinu, að með hinum umdeildu ummælum hafi leikmaðurinn gerst brotlegur við ákvæði 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Hafi ummæli leikmannsins, „Pólska drasl“ falið í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði varðandi þjóðernisuppruna leikmanns andstæðinga. Vegna brotsins skal leikmaðurinn sæta leikbanni í 5 leiki í keppnum og banni frá Dalvíkurvelli á meðan bannið varir.
Leikmaðurinn var ekki á vegum FH er hann lék æfingaleik með Magna á Dalvíkurvelli og kom FH þar hvergi nærri. Eins og mál þetta er vaxið er það mat aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til þess að refsa knattspyrnudeild FH í málinu með fjársekt. Telja verður að með því að leika undir merkjum knattspyrnudeildar Magna, hafi leikmaðurinn haft hlutverk á vegum Magna í tengslum við leikinn sem leikmaður. Samkvæmt 4.2. gr. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót er knattspyrnudeild Magna því ábyrg fyrir framkomu leikmannsins í tengslum við leikinn og skal skv. grein 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál sektuð um kr. 100.000.“
,,Fokking hommi“
Í hinu málinu er Svavar Arnar Þórðarson, leikmaður Njarðvíkur, dæmdur í bann fyrir að hafa sagt ,,fokking hommi“ við andstæðing sinn í leik í 2. flokki. Nefndin segir í niðurstöðu sinni að ummælin feli í sér niðurlægingu í orði með vísan til kynhneigðar. Svavar er fæddur árið 2004. Njarðvík, líkt og Magni, fær 100 þúsund krónur í sekt.
Hér má sjá niðurstöðuna úr úrskurði um mál Svavars í heild sinni:
„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, m.t.t. þeirra gagna sem aflað hefur verið í málinu, að með hinum umdeildu ummælum hafi leikmaðurinn gerst brotlegur við ákvæði 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Hafi ummæli leikmannsins; „fokking hommi“ falið í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði með vísan til kynhneigðar leikmanns andstæðinga. Vegna brotsins skal leikmaðurinn sæta leikbanni í 5 leiki í öllum keppnum á vegum KSÍ og banni frá Domusnova vellinum í Reykjavík á meðan bannið varir.
Telja verður að með því að leika undir merkjum knattspyrnudeildar UMFN, hafi leikmaðurinn haft hlutverk á vegum Njarðvíkur í tengslum við leikinn sem leikmaður. Auk þess sem hann er skráður leikmaður með keppnisleyfi hjá Njarðvík. Samkvæmt 4.2. gr. í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót er knattspyrnudeild Njarðvíkur því ábyrg fyrir framkomu leikmannsins í leiknum og skal skv. grein 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál sektuð um kr. 100.000.“