Samkvæmt fjölmiðlum á Ítalíu hefur Jurgern Klopp, stjóri Liverpool, áhuga á því að fá miðjumanninn Aaron Ramsey frá Juventus í sumar. Hann gæti verið fáanlegur fyrir litla upphæð.
Ramsey kom til Juventus á frjálsri sölu frá Arsenal sumarið 2019 en hefur ekki tekist að vinna sér inn fast sæti í liðinu. Þá hefur hann einnig glímt við meiðsli. Hann er með um 120 þúsund pund í vikulaun á Ítalíu og forráðamenn Juve sjá sér leik á borði með því að losa hann af launaskrá.
Verðmiðinn á honum er talinn vera um 17 milljónir punda en þó gæti ítalska stórliðið skoðað tilboð allt niður í 10 milljónir punda.
Sjálfur sagði Ramsey í viðtali við FourFourTwo að árin hjá Juve hafi verið pirrandi fyrir hann og að meiðslin hafi sett stórt strik í reikninginn.
Georginio Wiljnaldum er á förum frá Liverpool í sumar og þá er einnig óvissa með framtíð Alex Oxlade-Chamberlain. Það gæti því verið kjörið fyrir liðið að fá inn miðjumann í sumar.