Samkvæmt enska blaðinu Telegraph hefur Manchester United áhuga á að fá Danny Ings framherja Southampton í raðir félagsins í sumar.
Ings hefur raðað inn mörkum fyrir Southampton síðustu ár eftir að félagið keypti hann frá Liverpool.
Harry Kane framherji Tottenham vill fara frá félaginu í sumar og hefur hann verið sterklega orðaður við Manchester United og Manchester City.
Veðbankar telja í dag jafn miklar líkur á því að Kane fari til United eins og City en Kane er sagður spenntur fyrir Manchester City og er félagið sagt hafa hafið viðræður við Tottenham.
Ings gæti verið í aukahlutverki hjá United fyrir Edinson Cavani ef félaginu mistekst að klófesta Kane.