Gjaldþrotaskiptum er lokið hjá ferðaþjónustufyrirtækinu PT-ferðum sem áður hétu Prime Tours. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu voru lýstar kröfur í búið rúmlega 268 milljónir króna. Rúmlega 44 milljónir greiddust upp í forgangskröfur.
Félagið komst í fréttir árið 2018 en þá sá fyrirtækið um akstursþjónustu fatlaðra samkvæmt samningi við Strætó. Fyrirtækið fór þá í gjaldþrot en eigandinn freistaði þess að viðhalda aksturþjónustunni í gegnum annað félag. Keypti eigandinn bílaflota félagsins á nýrri kennitölu og undir heitinu Far-vel. Strætó samþykkti framsal á samningi Prime Tours til Far-vel um akstursþjónustu fatlaðra.
Þá sinnti félagið ýmiskonar ferðaþjónustu við erlenda ferðamenn og bauð til dæmis upp á afþreyingarferðir innanlands. Slitum er nú lokið á þrotabúi félagsins og heyrir það endanlega sögunni til.