Í gær fékk DV upplýsingar um að grímuklæddir menn hefðu ráðist inn á veitingastaðinn Gríska húsið við Laugaveg um fjögurleytið á þriðjudag og ráðist á starfsfólk sem svaraði í sömu mynt. Ekki er vitað um tilefni árásarinnar. Einnig var rúða brotin á staðnum um nóttina og er ekki vitað um hvort tengsl séu á milli atvikanna.
DV náði sambandi við Guðmund Pál Jónsson lögreglufulltrúa og spurði út í atvikið. Segir hann að þegar lögreglu bar að hafi staðið yfir átök milli fjögurra manna fyrir utan staðinn. Málið sé í rannsókn og ekki séu gefnar frekari upplýsingar um það. Aðspurður um handtökur segir hann að þrír menn hafi verið yfirheyrðir. Vitað sé hverjir komu við sögu í málinu og rannsókn miði vel.