Krafa Reykjavíkurborgar um að hluti garðs skuli fara undir berjarunna eða gróðurþekju á einkalóðum hefur verið mikið til umræðu undanfarna daga. Vakti Guðmundur Heiðar Helgason, markaðsstjóri Strætó og íbúi í Vogabyggð, meðal annarra athygli á einkennilegu framferði Reykjavíkurborgar þegar hún krafðist þess að Guðmundur setti berjarunna á örlítinn blett sem fylgdi íbúð hans í nýju hverfi. „Samkvæmt skilmálum frá Reykjavíkurborg mátti pallurinn ekki ná yfir allan reitinn okkar,“ lét Guðmundur hafa eftir sér í fjölmiðlum um málið. Guðmundur fór með mál sitt í gegnum kerfið í borginni, en hafði ekki erindi sem erfiði í slag sínum við borgaryfirvöld: Berjarunninn skal standa!
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti svo í morgun athygli á enn einum garðinum í Vogabyggð.
„Hér má líta garðskika í Vogabyggð, hvar hið opinbera lagði íbúum þær skyldur á herðar að leggja þennan agnarsmáa grasblett. Vítamínsprauta fyrir framtíðina, ekki satt? Mikilvægur reitur til leiks og hreyfingar barna, ekki satt?“ skrifar Hildur í hæðnistón.
Vísar Hildur þá til álits borgarinnar um málið, en þar segir: „Græn svæði eru eins og vítamínsprauta fyrir framtíðina og hafa mikil áhrif á framtíðarlýðheilsu borgarbúa. Mikilvægt er að standa vörð um réttinn til leiks og hreyfingar fyrir börn.“
Myndin sem Hildur lætur fylgja með sem hún segist hafa fengið senda frá íbúa í Vogabyggð er svo dæmi um „vítamínsprautu fyrir framtíðina“ og „mikilvægt leiksvæði fyrir börn.“
Ljóst er að fylgjendur Hildar á Facebook hafa skynjað hæðnina. Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu og fyrrum formaður VR, svarar Hildi: „Svo fer pallurinn undir sláttuvélina sem sinna skal frímerkinu. Þetta er nú meiri dellan.“ „Bara eitt stórt djók,“ skrifar annar. Enn önnur bendir á hættuna við að leggja gras alveg upp að útvegg, „Svona frágangur kallar á raka í veggjum og hugsanlega myglu.“