fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Stuðningsmenn á Seltjarnarnesi grófir í stúkunni – „Aldrei orðið vitni að svona grófum talsmáta“ segir Karen

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 20. maí 2021 12:32

Mynd af Kareni: Aðsend - Mynd úr leik/Skjáskot af YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gær fór fram leikur ÍR og Gróttu í oddaleik í umspili Grill 66-deildarinnar í handbolta kvenna. Að sögn áhorfanda leiksins var hann frábær en það skyggði á leikina að nokkrir áhorfendur Gróttu ákváðu að eyða tíma sínum í að niðurlægja leikmenn og þeirra líkamsburði í stað þess að styðja sitt eigið lið.

Karen Ösp Guðbjartsdóttir, leikmaður ÍR, var ein þeirra sem varð fyrir barðinu á áhorfendunum. „Hey Karen, ef þú værir nokkrum kílóum léttari hefðir þú þá ekki náð þessum bolta“, „Hey Karen, áttirðu ekki að verja þetta“ og „Hey Karen, er ekki kominn tími til að létta sig?“ var á meðal þess sem hrópað var á hana úr stúkunni.

„Þetta er náttúrulega bara alveg glatað, þetta á ekki að viðgangast í neinni íþrótt, auðvitað á þetta aldrei að viðgangast en það á líka við um íþróttir, við erum líka manneskjur með tilfinningar. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, þetta er bara alveg ömurlegt,“ segir Karen um málið í samtali við DV.

Karen segist ekki taka þetta inn á sig í dag en þetta hafði þó áhrif í leiknum sjálfum. „Ég tek þetta auðvitað ekkert inn á mig núna í daglegu lífi eftir leikinn en á þessum stað og stund í leiknum þá fór maður auðvitað að hlusta á þetta því þetta var svo mikið og ítrekað. Ef það var eitthvað sannleikskorn í einhverju þá fer maður náttúrulega að taka þessi ljótu orð inn á sig. Maður getur ekki leitt allt hjá sér, þó maður reyni auðvitað að þykjast ekki heyra þetta þá var þetta bara það mikið og það ljótt að þetta tók mann bara alveg úr jafnvægi í leiknum.“

„Ég hef aldrei orðið vitni að svona grófum talsmáta“

Þessi talsmáti hjá stuðningsmönnum Gróttu var óvenju grófur samkvæmt Kareni. Stuðningsmennirnir gengu líka óvenjulega langt en þeir höfðu safnað saman persónulegum upplýsingum um leikmenn ÍR fyrir leikinn.

„Það eru auðvitað til erfiðir aðdáendur alls staðar en ég hef aldrei orðið vitni að svona grófum talsmáta. Það er verið að fara inn á okkar persónulegu mörk. Það var verið að gúggla, fara inn á Facebook-síður hjá leikmönnum og komast að persónulegum upplýsingum og þeir notuðu það sér til framdráttar til að reyna að rífa okkur niður.“

„Þeir voru bara með nafnalista yfir hverja einustu í okkar liði“

Karen segir að þessu hafi ekki bara verið beint að henni, heldur hinum liðsfélögum hennar líka. „Þetta var allt liðið. Þeir voru bara með nafnalista yfir hverja einustu í okkar liði. Það kom ung stelpa inn á sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokknum þegar það voru einhverjar 10 mínútur eftir. Hún er stór, hávaxin, ótrúlega flott handboltastelpa og þeir byrjuðu bara að rakka hana niður og voru með nafnið hennar og númerið hjá sér. Þetta var rosalegt.“

Þá nefnir Karen dæmi um það hversu langt stuðningsmennirnir gengu. „Hornamaðurinn hjá okkur hefur orðið Miss Universe Iceland, ótrúlega falleg stelpa eins og allar stelpurnar þarna en hún er alveg svona extra falleg, og þeir tóku hana fyrir: „Hey ekki fara að vinna í kvöld eins og þú vannst Miss Universe“. Þeir voru alveg komnir þangað, greinilega búnir að stúdera okkur.“

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem stuðningsmenn Gróttu gerast sekir um þetta, svipað var uppi á teningnum í fyrri leik liðanna. „Þeir komu einn leikinn upp í Austurberg, á heimavöllinn okkar, og þar voru þeir stoppaðir í hálfleik. Þar voru umsjónarmenn í Austurbergi sem sögðu þeim að stoppa, annars yrðu þeir reknir út. Svo kom næsti leikur, úrslitaleikurinn og þar gengu þeir bara yfir öll mörk. Þetta var líka bara svo leiðinlegt, þetta var seinasti leikurinn á tímabilinu og að klára tímabilið með svona reynslu er bara ömurlegt.“

7 ára strákur hafði það á orði hvað áhorfendurnir voru dónalegir

Karen segist vilja opna á umræðuna um málið. „Ég vildi helst bara byrja að tala um þetta, ekkert endilega til að ráðast eitthvað á Gróttu, heldur bara til að opna umræðuna um ofbeldi hjá áhorfendum, áhorfendum sem kunna sig ekki,“ segir hún.

„Þetta er náttúrulega bara slæmt orðspor fyrir íþróttir. Ég fékk einmitt skilaboð frá einni sem mætir oft á leiki með 7 ára strákinn sinn. Hún sagðist hafa verið næstum búin að labba út af einhverjum leik um daginn, þá var hún á leik sem var líka með svona brútal orðbragð, það var ÍR-Grótta líka en hjá körlunum. Hún heldur með Gróttu meira að segja. Litli strákurinn hennar hafði það meira að segja að orði hvað áhorfendurnir voru rosalega dónalegir.“

Hún vill reyna sitt besta í að leggja sitt af mörkum í að uppræta svona hegðun hjá stuðningsmönnum. „Ekki bara sitja og hlusta á þetta og leyfa þessu að viðgangast, ég nenni því ekki,“ segir hún. „Ég vil líka að það komist til skila að þetta sé bara ekki normið. Eins og fyrir fólk sem er að mæta með krakkana sína á leiki, að þetta sé bara normið að fá að heyra þetta því þá hugsar það bara að það vilji ekki að barnið sitt upplifi það að heyra þetta.“

„Það er alltaf sagt við íþróttafólk að leiða þetta bara hjá sér, að þetta séu bara vitleysingar. En þegar það er einhver í eyranu á þér allan leikinn að kalla þig ljótum nöfnum og að komast inn í hausinn á þér þá oftast virkar það þegar þetta er svona brútal.“

Karen vill að lokum að það komi skýrt fram að hún vilji ekki niðurlægja félagið Gróttu sem slíkt eða þessa einstaklinga. „Þetta eru kannski alveg ágætir strákar en þeir kunna bara ekki að haga sér.“

„Handknattleiksdeild Gróttu harmar ummælin“

Grótta hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins. „Handknattleiksdeild Gróttu harmar ummælin og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á atvikinu. Háttsemi sem þessi er úr öllum takti við það sem félagið vill standa fyrir. Gildir einu við hvaða aðstæður ummælin eru látin falla eða til hverra þau ná. Þau eru í andstöðu við siðareglur Íþróttafélagsins Gróttu og stefnu handknattleiksdeildar,“ segir í tilkynningunni.

„Rétt er að fram komi að viðkomandi einstaklingar harma atvikið sömuleiðis og hefur afsökunarbeiðni verið komið á framfæri til leikmanna ÍR. Handknattleiksdeild Gróttu vill af þessu tilefni árétta að handknattleiksíþróttin á að vera uppbyggileg, sameiningarafl og gleðigjafi. Því ber okkur í hvívetna að umgangast hvert annað af virðingu. Verður þess sérstaklega gætt að slíkt atvik eigi sér ekki stað aftur á vegum félagsins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna
Fréttir
Í gær

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar