Ashley Barnes framherji Burnley var handtekinn í síðustu viku skömmu eftir að félagið hafði tryggt veru sína í efstu deild. Barnes var að keyra sauðdrukkinn heim þegar lögreglan stöðvaði hann.
Barnes sem er 31 árs hafði eins og fleiri leikmenn Burnley verið að drekka í rútunni heim frá Lundúnum. Burnley tryggði veru sína í deildinni á mánudag í síðustu viku, liðið vann þá sigur á Fulham.
Leikmenn Burnley gerðu sér glaðan dag í rútunni á leiðinni heim til Burnley en Barnes ákvað að keyra sjálfur heim eftir fjögurra tíma drykkju.
Barnes var handtekinn á Mercedes bifreið sinni nærri heimili sínu í úthverfi Manchester en var skömmu síðar leystur úr haldi.
Hann hefur verið kærður og kemur fyrir dóm 14 júní. Í yfirlýsingu Burnley kemur fram að félagið muni refsa Barnes fyrir málið en Sean Dyche stjóri Burnley er sagður óhress með það.
Barnes var ónotaður varamaður í tapi Burnley gegn Liverpool í gær en Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley.