Nokkrir stuðningsmenn Tottenham slógust við öryggisverði á heimavelli þeirra eftir tapleikinn gegn Aston Villa í kvöld.
Leiknum lauk með 1-2 sigri Villa og þýða úrslitin að nú er ólíklegt að Tottenham nái Evrópudeildarsæti.
Eftir leik var það á dagskránni að leikmenn myndu taka einn hring um völlinn og þakka stuðningsmönnum fyrir að hafa staðið við bakið á þeim á leiktíðinni sem er að ljúka. Þetta er almennt gert eftir síðasta heimaleik hvers liðs.
Þegar stuðningsmenn höfðu beðið í um hálftíma eftir því að leikmenn kæmu aftur út á völl var þeim hins vegar óskað góðrar ferðar heim í kallkerfi vallarins. Enginn ,,þakkarhringur.“
Þetta fór ansi illa í suma stuðningsmenn. Mikil reiði hefur safnast upp hjá þeim undanfarið vegna tilraunar liðins til þess að taka þátt í stofnun evrópsku Ofurdeildarinnar sem og þeirrar staðreyndar að Harry Kane virðist ætla að yfirgefa félagið í sumar. Sumir stuðningsmenn réðust því til atlögu.
,,Skondin saga. Þeir sögðu okkur að sitja hér og bíða þolinmóð þar til leikmennirnir koma aftur og sýna allavega smá virðingu. Náunginn í kallkerfinu var að segja ‘takk fyrir stuðninginn á tímabilinu. Passið upp á eigið öryggi á leið út. Haldið fjarlægð’,“ sagði einn stuðningsmaður Tottenham á myndbandi sem hann tók upp frá vellinum eftir leik.