Síðustu tveimur leikjum kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni er nú lokið.
Liverpool fór upp fyrir Leicester
Liverpool vann öruggan útisigur á Burnley. Þeir eru nú í afar góðri stöðu hvað varðar Meistaradeildarsæti.
Roberto Firmino kom gestunum yfir rétt fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var 0-1.
Snemma í seinni hálfleik tvöfaldaði Nat Phillips forystu Liverpool. Alex Oxlade-Chamberlain gulltryggði svo sigurinn með þriðja markinu undir lok leiks. Lokatölur 0-3.
Liverpool er nú komið í fjórða sæti, upp fyrir Leicester á markatölu. Liðið á heimaleik gegn Crystal Palace í lokaumferðinni á meðan Leicester fær Tottenham í heimsókn. Það verður því að segjast að útlitið er gott fyrir Liverpool.
West Ham líklega á leið í Evrópu
West Ham vann mikilvægan útisigur á West Bromwich Albion.
Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir gestina en Declan Rice klúðraði víti strax í byrjun. Þá kom Matheus Pereira WBA yfir á 27. mínútu. Tomas Soucek jafnaði þó metin fyrir West Ham í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan var 1-1 í hálfleik.
Angelo Ogbonna kom Hömrunum yfir á 82. mínútu. Michail Antonio gulltryggði svo sigur þeirra í lok leiks. Lokatölur 1-3.
West Ham er í sjötta sæti deildarinnar, síðasta Evrópudeildarsætinu, með 62 stig. Þeir eru 3 stigum á undan Tottenham og eiga heimaleik gegn Southampton í lokaumferðinni.