Fyrri rannsóknir höfðu sýnt að kórónuveiran getur valdið tjóni á æðum og vef í líkamanum. Rannsókn Bandaríkjamannanna sýnir að vefur í getnaðarlimi karla getur einnig skaddast af völdum veirunnar.
Niðurstöður rannsóknar þeirra hafa verið birtar í World Journal of Men‘s Health. Í henni kemur fram að karlar geti glímt við risvandamál ef vefurinn í getnaðarlimi þeirra sýkist af veirunni.
„Í rannsókn okkar sáum við að menn, sem höfðu ekki áður glímt við risvandamál, hafa fengið mjög alvarleg risvandamál eftir að hafa sýkst af kórónuveirunni,“ hefur Sky News eftir Ranjith Ramasamy, aðalhöfundi rannsóknarinnar.
Rannsóknin var framkvæmd á þvagfæradeild háskólans í Miami. Fjórir karlar, sem allir glímdu við risvandamál, tóku þátt í henni. Tveir þeirra höfðu smitast af kórónuveirunni en hinir ekki. Þeir voru allir á aldrinum 65 til 71 árs. Þeir tveir, sem höfðu smitast af kórónuveirunni, höfðu aldrei áður glímt við risvandamál. Í vef í getnaðarlimum þeirra fundu vísindamenn leifar af kórónuveirunni.