Sunderland tapaði í kvöld gegn Lincoln í fyrri leiknum í undanúrslitum umspilsins í ensku C-deildinni.
Sigurvegarinn í einvíginu fer í úrslitaleik við annað hvort Oxford eða Blackpool um sæti í Championship-deildinni á næstu leiktíð. Tom Hopper kom Lincoln yfir snemma í seinni hálfleik í dag og Brennan Johnson innsiglaði 2-0 sigur þeirra þegar um stundarfjórðungur lifði leiks.
Sunderland hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni árið 2017 og hefur mikið fjaðrafok verið í kringum það síðan. Sunderland féll lóðbeint úr Championship-deildinni árið eftir og hefur verið í C-deildinni síðan. Þeim tókst að komast í úrslitaleik umspilsins árið 2019 en töpuðu þar.
Seinni leikurinn fer fram á heimavelli Sunderland á laugardag. Það er spurning hvort þeir nái að snúa við tveggja marka forskoti Lincoln þar.