Orri Páll Vilhjálmsson, annar af tveimur veitingamönnum sem hafa unnið hörðum höndum að opnun nýs veitingastaðar við Laugaveg 12, hefur ákveðið að draga sig út úr verkefninu. Ástæðan er sú að hann segist hafa gert mistök í samskiptum við hitt kynið og að hann vilji vera hluti að lausninni en ekki vandamálinu. Þetta kemur fram í færslum á Instagram sem Orri Páll hefur birt.
Í byrjun vikunnar var greint frá því í fjölmiðlum að tveir af reyndari veitingamönnum landsins, Orri Páll og Arnór Bohic, hyggðust opna staðinn Botanica á áðurnefndum stað þar sem Le Bistro var áður til húsa.
Kom fram að staðurinn myndi verða undir suðuramerískum áhrifum í mat, drykk og tónlist – allt frá Kúbu niður til Argentínu.
Fljótlega þegar tilkynningin birtist upphófst hávær orðrómur á samfélagsmiðlum um að Orri Páll hefði farið út fyrir mörk í samskiptum við hitt kynið og þá sérstaklega við kvenkyns starfsmenn sína í veitingageiranum.
Orðrómurinn hefur nú haft þau áhrif að Orri Páll hefur ákveðið að stíga til hliðar í verkefninu eins og áður hefur komið fram.