Gunnar Sigurðsson, oft kallaður Gunnar á völlum eða Gunni Samloka, skaut á Fram í hlaðvarpsþættinum Innkastið á Fótbolta.net í vikunni. Þar sagðist hann hafa miklar framtíðaráhyggjur af liðinu þar sem það sé ,,heimilislaust.“
Fram hefur undanfarin ár flakkað á milli heimavalla. Karlaliðið lék lengi vel á Laugardalsvelli og árið 2015 léku þeir hluta mótsins í Úlfarsárdal. Þeir fluttu þó aftur í Laugardalinn stuttu síðar áður en liðið færði sig svo í Safamýri árið 2019. Þar hefur félagið einmitt verið með höfuðstöðvar lengi. Á næsta ári mun félagið þó flytja sig á nýtt íþróttasvæði í Úlfarsárdal. Þá mun Víkingur Reykjavík taka við Safamýri.
,,Einhverra hluta vegna þá bý ég í Safamýrinni, sem er Víkings Reykjavíkur-hverfið í dag en Frammararnir spila samt leikina sína í Víkings-hverfinu og það náttúrulega fjölmennti allt fólkið úr Grafarholtinu að sjá sitt lið spila,“ sagði Gunnar í kaldhæðnum tón. Hann bætti svo við ,,Það náttúrulega var ekki kjaftur frá þeim.“ Þarna ræddi hann áhorfendur á leik Fram og Víkings frá Ólafsvík.
,,Þetta voru bara ‘hard-core’ Frammararnir úr þessu hverfi sem mættu.“ Framtíðar áhyggjur mínar af Frömmurunum eru miklar. Þeir kunna að vera sætir á velli og allt það en ef þú átt hvergi heima þá ertu bara útigangsmaður og það fer ekki vel.“