Samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV réðust 3-4 grímuklæddir menn inn á veitingahúsið Gríska húsið við Laugaveg í gær, börðu starfsmenn og létu ófriðlega. Samkvæmt sömu heimildum veittu starfsmenn harða mótspyrnu. Lögregla og sérsveit komu á vettvang.
Atvikið átti sér stað á sjötta tímanum í gær. Um nóttina var rúða á veitingastaðnum mölbrotin en ekki er vitað hvort þau skemmdarverk tengist innrásinni inn á staðinn.
Ólíklegt er talið að um ránsferð hafi verið að ræða en líklegra að þetta falli undir einhvers konar persónulegt uppgjör eða kúgunaraðgerðir.
DV fékk upplýsingar um málið um fimm-leytið í dag og hefur ekki tekist að fá upplýsingar hjá lögreglu þrátt fyrir tíðar símhringingar í yfirmenn á svæði Lögreglustöðvar 1. Ekki er því vitað um handtökur í málinu. Send hefur verið fyrirspurn á upplýsingasvið lögreglu sem verður líklega svarað á morgun.