Sextíu og níu ára gamall maður höfðaði mál á hendur Kölku Sorpeyðingarstöð í Grindavík vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar. Kveðinn var upp dómur í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í gær.
Maðurinn starfaði hjá sorpeyðingarstöðinni frá árinu 2005 við að taka á móti viðskiptavinum og innheimta sorphirðugjald. Honum var sagt upp störfum í febrúar árið 2020. Var hann með hegðun sinni sagður hafa brotið ráðningarsamninginn. Var hann sakaður um brot á reglum um meðferð efnis á svæðinu, fyrir að hafa sýnt viðskiptavinum offors og hótað þeim hækkun á sorphirðugjaldi. Einnig var hann sakaður um að sanka að sér efni sem komið var með til sorpeyðingar. Síðast en ekki síst var hann sakaður um að hafa límt á vegg grófa klámmynd og þegar hann var beðinn um að taka hana niður hafi hann sett upp aðra grófari klámmynd í staðinn.
Maðurinn taldi uppsögnina ólögmæta, stefndi fyrirtækinu og krafðist tæplega sex milljóna króna í skaðabætur.
Héraðsdómur Reykjaness taldi að samkvæmt ráðningarsamningi væri fyrirtækinu ekki heimilt að segja upp manninum í kjölfar brota á starfsskyldum. Enn fremur hafi hann ekki notið andmælaréttar. En hann varð ekki við áskorðun dómsins um að leggja fram gögn um tekjur sínar, t.d. í uppsagnarfresti og atvinnuleysisbætur, fyrir hluta af því tímabili sem er undir í skaðabótakröfu hans.
Var það niðurstaða dómsins að Kalka Sorpeyðingarstöð ætti að greiða þessum brottrekna starfsmanni sínum 2,5 milljónir króna. Ennfremur þarf Kalka að greiða manninum eina milljón króna í málskostnað.