Nammistríðið milli sælgætisgerðarinnar Góu og Nóa Síríus er á suðupunkti þessa dagana og báðir aðilar virðast farnir að draga fram stóru byssurnar. Stríðið hófst þegar Nói Síríus tilkynnti nýja vöru sem ber nafnið Tromp hvellur. Forsvarsmenn Góu voru ekki par sáttir með þetta útspil Nóa þar sem varan var nákvæmlega sú sama og vinsælasta vara Góu seinasta sumar, Appolo lakkrísbitar. DV hefur fjallað um málið seinustu daga.
Leynilegur útsendari
Í hópnum Nammitips keppast útsendarar fyrirtækjanna við að skrifa um sælgætið. Eini munurinn er að útsendarar Góu virðast vera almennir neytendur en útsendarar Nóa eru starfsmenn fyrirtækisins. Nokkrum sinnum hefur nefnilega aðili sem er skráður starfsmaður Nóa Síríus skrifað færslur í hópinn til að auglýsa nýjar vörur Nóa.
Góa sigraði kosninguna
Í óopinberri kosningu sem haldin var í hópnum í gær kom í ljós að bitarnir frá Góu hafa unnið hug og hjörtu landsmanna og sigruðu ansi örugglega í kosningunni.
Nói Síríus hafa áður notast við kosningu úr Nammitips við auglýsingar, til dæmis þegar þeir auglýstu Eitt sett í bitum sem besta nýja nammið þar sem vísað var í kosningu í hópnum. Ólíklegt er þó að þeir notist við niðurstöðurnar úr þessari kosningu fyrir auglýsingar á næstunni.
Ódýr gjafaleikur
Í dag var auglýstur gjafaleikur innan hópsins á vegum Nammitips og Nóa Síríus þar sem tíu heppnir aðilar,, sem segja í ummælum með hverjum þeir ætla að deila vinningnum geta unnið kassa af Tromp hvellum. Kassi af hvellum kostar 459 krónur miðað við heimasíðu Heimkaups og er því andvirði tíu kassa 4.590 krónur. Það er greinilegt að nýir norskir eigendur eru ekkert að grínast með fjármagnið sem þeir hafa ákveðið að dæla í markaðssetninguna.
Slagorð Góu fyrir Appolo lakkrísbitana er „Sumarsmellurinn frá Góu trompar allt annað“ og er það greinilegt fallbyssuskot á vöru Nóa Síríus.