Þetta segja þýskir hagfræðingar að sögn The Times. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Í henni kemur fram að hægt hefði verið að bjarga 2.000 mannslífum ef gripið hefði verið til harðra sóttvarnaaðgerða í upphafi fyrstu bylgju faraldursins. The Times segir að þetta svari til þess að hægt hefði verið að fækka dauðsföllum um tæplega 40% í fyrstu bylgju faraldursins en tæplega 6.000 Svíar létust af völdum COVID-19 frá mars og fram í ágúst 2020. Á þeim tíma var dánartíðnin sú hæsta í Evrópu miðað við hlutfall látinna af íbúum.
Þýsku hagfræðingarnir, sem starfa við Frankfurt School of Finance and Management, reiknuðu út áhrif sóttvarnaaðgerða út frá smittölum í öðrum Evrópuríkjum, sem eru samanburðarhæf hvað varðar fyrri faraldra, lýðfræði og dreifingu íbúa um landið. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu PLOS one. Meðal samanburðarlandanna voru Danmörk, Noregur, Finnland og Holland.
Út frá gögnum samanburðarlandanna reiknuðu hagfræðingarnir út hvernig fyrsta bylgja faraldursins hefði þróast í Svíþjóð, tölfræðilega séð, ef gripið hefði verið til harðra níu vikna sóttvarnaaðgerða strax um miðjan mars á síðasta ári. Niðurstaðan er að með því hefði verið hægt að koma í veg fyrir 75% smita og 38% dauðsfalla og það án mikilla efnahagslegra afleiðinga.
„Lokun samfélagsins í fyrstu bylgjunni hefði getað dregið mikið úr fjölda smitaðra og látinna,“ hefur The Times eftir Gernot Müller, einum höfunda rannsóknarinnar.