Pierre-Emile Hojbjerg, miðjumaður Tottenham, hefur kallað eftir því að félagið ráði til starfa þjálfara með metnað eftir að Mourinho var rekinn.
Liðið leitar að framtíðarþjálfara eftir að hinn skrautlegi Jose Mourinho var rekinn í síðasta mánuði. Ryan Mason tók tímabundið við stjórn liðsins og eru líkur á því að hann nái að sigla liðinu í Evrópudeildina á næsta tímabili.
Hojbjerg, sem skoraði og gaf stoðsendingu í síðasta leik gegn Wolves, hafði þetta að segja þegar hann var spurður um þjálfaramál félagsins:
„Þetta er erfið spurning og ég get lítið tjáð mig um þetta. En ég get sagt að Tottenham er metnaðarfullur klúbbur og við þurfum metnaðarafullan þjálfara.“
Þá segir Hojbjerg að stefnan sé að ná í Evrópudeildina á næsta tímabili þar sem Meistaradeildarsæti sé líklega ekki raunhæft.
„Við viljum virkilega ná því og vera partur af Evrópudeildinni. Og það er ekki nóg við viljum líka vinna hana. Það væri frábært að komast í keppnina og reyna að vinna á næsta tímabili.“