Þetta kemur fram í umfjöllun CNN. Fram kemur að útflutningur á bóluefnum gegn kórónuveirunni til Kenía fari fram í gegnum hina alþjóðlegu COVAX-áætlun. Það er áætlun sem miðar að því að koma bóluefnum gegn kórónuveirunni til fátækra ríkja. Kenía er algjörlega háð þessari áætlun í baráttunni við faraldurinn. En nú fær landið ekki lengur skammta af Covidshield, sem er umframframleiðsla á bóluefni AstraZeneca, sem er framleitt á Indlandi.
Samkvæmt tölum frá Our World in Data er búið að bólusetja tæplega tvö prósent af íbúum Kenía með einum skammti af bóluefninu. Þetta er hærra hlutfall en í öðrum Afríkuríkjum.
Dr. Ahmed Kalebi, einn fremsti vísindamaður Kenía á heilbrigðissviðinu og meðstofnandi LancetGroup Laboratories, segir að ríku löndin verði að endurskoða bólusetningaáætlanir sínar. Þar er hann aðallega með bólusetningar á hópum sem eru í lítilli áhættu, þar á meðal eru börn og ungmenni, í huga. „Það er ekki forsvaranlegt að bólusetja unglinga á meðan viðkvæmari þjóðfélagshópar fá ekki aðgang að bóluefnum. Þessi staða býr til kjörskilyrði fyrir þróun nýrra ofurafbrigða kórónuveirunnar. Enginn er öruggur fyrr en við höfum bólusett alla,“ sagði hann.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur gagnrýnt ríku löndin fyrir að einblína á eigin vandamál á sama tíma og þau láta vandamál fátækju ríkjanna sig litlu skipta. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, sagði nýlega að skipting bóluefnanna á milli ríku landanna og þeirra sem eru ekki svo stöndug sé þannig að síðarnefndu löndin fái ekki einu sinni nægilegt bóluefni til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk.
Rannsókn bandarískra, breskra, sænskra og suðurafrískra vísindamanna frá í mars sýnir að mikil hætta er á að kórónuveiran lagi sig að vaxandi ónæmi meðal fólks um allan heim og þrói með sér ný og hættuleg afbrigði, ofurafbrigði.