Leiknir Reykjavík vann virkilega góðan sigur á Fylki í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Þetta var þeirra fyrsti sigur á tímabilinu og sá fyrsti í efstu deild síðan árið 2015.
Fyrsta mark leiksins kom í blálok fyrri hálfleiks. Þá skoraði Sævar Atli Magnússon fyrir Leikni eftir sendingu frá Degi Austmann inn fyrir vörn gestanna. Staðan í hálfleik var 1-0.
Fylkir reyndi að finna jöfnunarmark í seinni hálfleiknum en allt kom fyrir ekki. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson gerði út um leikinn fyrir heimamenn á 87. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu.
Í uppbótartíma fékk Leiknir svo vítaspyrnu þegar brotið var á Sævari Atla innan teigs. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi. Lokatölur 3-0.
Leiknir er nú með 5 stig eftir fjóra leiki. Fylkir er aðeins með 2 stig.