Sheffield United sigraði Everton á heimavelli sínum í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Tapið er slæmt fyrir Everton sem er að berjast um Evrópusæti.
Það var hinn 17 ára Daniel Jebbison sem skoraði eina mark leiksins á 7. mínútu. Þetta var hans fyrsti leikur fyrir aðallið Sheffield United en hann lék með Chorley Town í utandeild að láni fyrr á tímabilinu.
Everton náði ekki að ógna marki heimamanna mikið í leiknum. Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan seinni hálfleikinn með liðinu.
Everton er í áttunda sæti með 56 stig, 3 stigum á eftir Tottenham, sem er í sjötta og síðasta Evrópudeildarsætinu. Sheffield United er í neðsta sæti deildarinnar og fyrir löngu fallið.