Ozan Kabak, miðvörður Liverpool á láni frá Schalke í Þýskalandi, mun ekki ganga endalega í raðir félagsins í sumar ef marka má fréttir Daily Mail og The Sun í morgun.
Kabak kom til Liverpool í janúar á lánssamningi með ákvæði sem gefur félaginu rétt til þess að kaupa leikmanninn á 18 milljónir punda í sumar.
Virgil van Dijk kemur til baka úr meiðslum í sumar og þá er einnig talið að miðvörðurinn Ibrahima Konate verði keyptur á 34 milljónir punda. Það er ljóst að Kabak fengi ekki margar mínútur í öftustu línu Liverpool með þessa menn á undan sér í forgangsröðinni. Fyrir eru miðverðirnir Rhys Williams og Nat Phillips hjá félaginu.
Schalke er fallið úr þýsku Bundesligunni og spilar í B-deildinni á næstu leiktíð. Það er óvíst hvort að Kabak taki slaginn þar en samkvæmt þessum fregnum verður hann í hið minnsta ekki hjá Liverpool.