Juventus og Atalanta unnu bæði sigra í gríðarlega harðri Meistaradeildarbaráttu í Serie A á Ítalíu í dag.
Cristiano Ronaldo kom heimamönnum í Juve yfir í stórleiknum gegn Inter um miðjan fyrri hálfleik. Hann fylgdi þá eftir mislukkaðri vítaspyrnu. Um tíu mínútum síðar fengu gestirnir víti. Romelu Lukaku steig á punktinn og jafnaði leikinn. Juan Cuadrado kom Juve svo aftur yfir í blálok fyrri hálfleiks. Staðan í hálfleik var 2-1.
Á 83. mínútu leiksins varð Giorgio Chiellini fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Staðan orðin jöfn á nýjan leik. Þriðja vítaspyrna leiksins var þó dæmd í lok leiks. Ronaldo var farinn út af svo Cuadrado steig á punktinn og skoraði sigurmark Juve. Lokatölur 3-2.
Í Genúa komst Atalanta í 3-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Duvan Zapata, Ruslan Malinovsky og Robin Gosens. Eldor Shomurodov minnkaði muninn fyrir Genoa í byrjun seinni hálfleiks en Mario Pasalic kom Atalanta í 4-1 um hæl. Heimamönnum tókst að minnka muninn í 4-3 með mörkum Goran Pandev og Shomurodov.
Atalanta er í öðru sæti með 78 stig eftir 37 leiki. Juve er í því fjórða með 75 stig, einnig eftir 37 leiki. AC Milan er í þriðja sæti með 75 stig og Napoli í fimmta með 73 stig. Bæði Milan og Napoli hafa leikið leik minna en Atalanta og Juve. Það er spenna framundan í Meistaradeildarbaráttunni. Inter er orðið meistari og Genoa siglir lignan sjó í fjórtánda sæti.