Valur vann Fylki og Keflavík og Þróttur Reykjavík gerðu jafntefli í 3. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í dag.
Valur marði Fylki 1-0 á Origo vellinum. Mist Edvardsdóttir skoraði eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik. Heimakonur voru betri aðilinn í leiknum og áttu sigurinn skilið.
Valur er með 7 stig eftir þrjár umferðir. Fylkir er án stiga en liðið hefur þó aðeins leikið tvo leiki.
Nýliðar Keflavíkur komust yfir á heimavelli sínum á 10. mínútu. Þá skoraði Aerial Chavarin. Heimakonur leiddu með þessu marki í hálfleik þrátt fyrir að Þróttarar hafi fengið sín tækifæri. Shea Moyer jafnaði leikinn á 53. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar voru gestirnir komnir yfir. Þá skoraði Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir annað mark þeirra. Rúmum tíu mínútum síðar jöfnuðu heimakonur þó aftur og urðu lokatölur á HS Orku vellinum 2-2.
Keflavík er með 2 stig eftir þrjár umferðir. Þróttur er með 3 stig eftir að hafa gert jafntefli í öllum leikjum sínum til þessa.