Chelsea og Leicester mætast í úrslitaleik FA bikarsins í dag. Fyrrnefnda liðið getur unnið keppnina í níunda skiptið í dag. Leicester hefur komist fjórum sinnum í úrslitaleik keppninnar en aldrei unnið.
Þetta er annað árið í röð þar sem Chelsea kemst í úrslitaleikinn í þeirri elstu og virtustu. Í fyrra töpuðu þeir þó gegn Arsenal. Liðið vann keppnina síðast árið 2018.
Leicester komst síðast í úrslitaleikinn árið 1969. Brendan Rodgers, stjóri liðsins, hefur aldrei tekist að vinna titil á þjálfaraferli sínum á Englandi. Því getur hann breytt í dag.
Chelsea hefur spilað virkilega vel eftir að Thomas Tuchel tók við liðinu í janúar. Þeir eru í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur ásamt því að vera komnir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Sá þýski á því möguleika á að vinna tvöfalt á sínu fyrsta tímabili.
Leicester er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar og stefna á því að ná Meistaradeildarsæti í fyrsta sinn síðan þeir urðu Englandsmeistarar 2016.
Úrslitaleikurinn í dag fer fram á Wembley og hefst klukkan 16:15 að íslenskum tíma.