„Arbery varð fórnarlamb ofbeldisfullrar sjálftöku sem á ekki heima í landinu okkar eða ríkinu okkar,“ sagði Brian Kemp, ríkisstjóri, þegar hann skrifaði undir lögin.
Nú mega íbúar í Georgíu ekki lengur reyna að handtaka fólk sem það grunar að hafi framið lögbrot.
Arbery var skotinn þar sem hann var að trimma í íbúðahverfi í Brunswick. Þrír hvítir menn höfðu elt hann á bílum sínum áður en einn þeirra skaut Arbery.
Saksóknari komst að þeirri niðurstöðu að mennirnir hefðu ekki brotið gegn vopnalögum og að þeir hefðu mátt elta Arbery vegna laga sem heimiluðu borgaralegar handtökur. Á grundvelli þessarar niðurstöðu var enginn handtekinn vegna málsins fyrr en í maí á síðasta ári. Þá birtist myndband af morðinu og þá hófst rannsókn á málinu fyrir alvöru.
65 ára karlmaður, 35 ára sonur hans og 51 árs karlmaður, sem tók atburðarásina upp, hafa nú verið ákærðir fyrir morð. Þeir eru einnig ákærðir fyrir marga hatursglæpi og tilraun til mannráns. Réttarhöldin hefjast þann 18. október.
Morðið á Arbery var ásamt drápinu á George Floyd kveikja að Black Lives Matter mótmælunum sem hafa staðið yfir síðan síðasta sumar.