Víkingur vann góðan útisigur gegn Stjörnunni í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld.
Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir strax á 5. mínútu eftir slæm mistök Haralds Björnssonar í marki Stjörnunnar.
Heimamenn jöfnuðu metin eftir hálftíma leik. Hilmar Árni Halldórsson skoraði þá eftir stoðsendingu frá Þorsteini Má Ragnarssyni.
Stuttu síðar fengu Víkingar víti. Boltinn fór þá í höndina á Brynjari Gauta Guðjónssyni innan teigs. Hansen fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Stjarnan jafnaði rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með marki frá Tristani Frey Ingólfssyni. Markið var einstaklega flott af löngu færi.
Staðan í hálfleik var 2-2.
Sigurmark leiksins kom í upphafi seinni hálfleiks. Júlíus Magnússon gerði það fyrir Víkinga. Markið skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá Pablo Punyed. Lokatölur 2-3.
Víkingur er með 7 stig eftir þrjár umferðir. Stjarnan er aðeins með 1 stig.