West Ham þarf að borga Manchester United hálfa milljón punda takist þeim að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Það er vegna klásúlu í lánssamningi Jesse Lingard. The Sun greinir frá.
Lingard hefur verið frábær hjá West Ham síðan hann kom til félagsins á láni frá Man Utd í janúar. Hann hefur skorað níu mörk í 13 leikjum. Liðið hefur átt frábært tímabil. Það er 6 stigum á eftir Chelsea, sem er í síðasta Meistaradeildarsætinu eins og er, ásamt því að eiga leik til góða á þá bláu.
Það fylgja því háar upphæðir að ná Meistaradeildarsæti og ætti það því ekki að vera mikill vandi fyrir West Ham að reiða fram upphæðina.
Þá er einnig talið að bæði West Ham og Lingard hafi áhuga á því að leikmaðurinn gangi endanlega til liðs við félagið. Hann vill þó fá um 100 þúsund pund í vikulaun. Það gæti orðið erfitt fyrir Lundúnaliðið að borga svoleiðis launapakka ef illa fer í Evrópubaráttunni.