Octavio Paez, leikmaður Leiknis, hefur beðist afsökunar á grófri tæklingu sinni á Kára Gautasyni, leikmanni KA, í leik liðanna í gær. Paez fékk verðskuldað rautt spjald fyrir brotið.
Leikurinn sem um ræðir fór 3-0 fyrir KA. Brot Paez átti sér stað seint í leiknum, á vallarhelmingi KA þegar lítið var um að vera. Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, sagði í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik að hann vonaðist til að leikmaðurinn fengi meiri refsingu en eins leiks bann.
Paez hefur þó greinilega séð að sér. Hann harmaði atvikið í dag í afsökunarbeiðni sem hann birti á Twitter.
,,Mig langar til þess að biðjast afsökunar á því sem gerðist í gær. Löngun mín til þess að spila var yfirþyrmandi. Það var aldrei ætlun mín að meiða andstæðinginn minn en þrátt fyrir það þá þykir mér þetta mjög leitt. Ég er ekki svona leikmaður og mig langar einnig að biðja liðið og stuðningsmenn afsökunar,“ skrifaði Paez.
I want to apologise for what happened yesterday. My desire to play overwhelmed me. I never had the intention to hurt my opponent but I am still sorry. I am not like that and to the whole team and fans, too, I apologise. @LeiknirRvkFC
— Octavio Paez (@octaviopaez10) May 13, 2021