Kjartan Henry Finnbogason gekk í gær í raðir KR en hann fékk samningi sínum við Esbjerg í Danmörku rift til þess að komast heim í tæka tíð. Félagaskiptaglugginn lokar á morgun.
Kjartan sem er 34 ára gamall gekk í raðir Esbjerg í upphafi árs en hann ætlaði sér að koma heim um mitt sumar.
„Ég vildi ekki koma til Íslands í hjólastól, ég vildi koma heim í góðu standi og finnst það mjög spennandi,“ sagði Kjartan Henry í samtali við Morgunblaðið.
Kjartan lék með KR áður en hann hélt í atvinnumennsku en fleiri íslensk félög höfðu samband við hann. „Já, bæði ég persónulega og umboðsmaðurinn minn fengum nokkur símtöl. Það var alveg eitthvað svoleiðis í gangi en KR voru alltaf númer eitt hjá mér og ég hefði aldrei getað séð mig fyrir mér í einhverjum öðrum búningi en KR-búningnum heima á Íslandi.“
Kjartan er sáttur með að mæta heim núna en hann gæti spilað gegn Val á mánudag, sama dag og hann klárar sóttkví. „Því er ég ótrúlega feginn að geta komið strax til þess að hjálpa í stað þess að ég gæti ekki komið fyrr en á miðju tímabili eins og útlit var fyrir. Það er mikill áhugi fyrir deildinni heima og við vitum alveg hvað KR stefnir á, það þarf eiginlega ekki að segja það.“