Í lok janúar ræddi DV við Abdelaziz Mihobi, öðru nafni Aziz, en hann er frá Alsír. Aziz er íslenskur ríkisborgari, fyrrverandi landsliðsmaður Alsír í handbolta, og kom hingað til lands á tíunda áratugnum og lék handbolta með Val við góðan orðstír.
Aziz kynntist pólskri konu á Íslandi. Bjuggu þau saman í um 12 ár og eru raunar enn löglega hjón. Aziz og pólska konan eignuðust tvö börn sem eru langt undir lögaldri í dag, og raunar langt undir 10 ára aldri. Aziz og konan ákváðu að skilja að skiptum. Skömmu eftir að þau hættu saman tók konan börnin með sér fyrirvaralaust til Póllands án þess að ræða við Aziz.
Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Aziz, Fróða Steingrímssyni, var þetta brottnám barnanna kært til lögreglu á grundvelli 193. greinar almennra hegningarlaga, en þar segir: „Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.“
Þann 8. desember síðastliðinn úrskurðaði áfrýjunardómstóll í Varsjá að konan skyldi fara með börnin aftur til Íslands. Felldi hann úr gildi úrskurð héraðsdóms þar í landi sem úrskurðaði móðurinni í vil. Hafði hún 14 daga til að fara eftir úrskurðinum en hún er enn í Póllandi með börnin.
Aziz fullyrðir í samtali við DV að konan ætli ekki að hlíta úrskurðinum: „Íslensk yfirvöld gera ekkert. Hún segir að hún muni ekki snúa til baka til Íslands og það muni þurfa að flytja hana með valdi. Með því að fara með börnin út, halda þeim í Póllandi og neita þeim um að tala við mig er hún að brjóta á rétti barnanna sem eru íslenskir ríkisborgarar. Hún er heldur engan veginn að uppfylla þarfir barnanna en hún býr í einu herbergi með þeim í Póllandi.“
Samkvæmt frétt mbl.is er rannsókn lögreglunnar á meintum brotum konunnar lokið en á næstunni mun héraðssaksóknari taka ákvörðun um hvort gefin verður út ákæra á hendur hinni pólsku barnsmóður Aziz.
Ef ákæra verður gefin út þarf konan að koma til Íslands og svara til saka fyrir brottnám barnanna. Ef útgáfa ákæru ber ekki árangur er hægt að gefa hana út á erlendri grundu, annaðhvort með evrópskri handtökutilskipun eða með því að birta konunni ákæruna í Póllandi.
Þessar upplýsingar koma fram í frétt mbl.is sem ræddi við Fróða Steingrímsson, lögmann Aziz.
„Það væri gott að sjá kröftugri viðbrögð frá ráðuneytunum í ljósi þess að þetta eru tveir Íslendingar sem eru teknir úr landi en ég vona að þau vinni þetta eftir bestu getu,“ segir Fróði við mbl.is. Hann segir ekkert benda til þess að pólsk yfirvöld ætli að framfylgja úrskurði sínum þess efnis að konan eigi að fara með börnin til Íslands. Staðan fyrir Aziz, sem fær ekki að sjá börnin sín, er því mjög erfið.