Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Íslensk getspá og Íslenskar getraunir eru í eigu íþróttahreyfingarinnar. Mánaðarlega fá íþróttafélög greiðslur frá þessum félögum og aukagreiðslur þegar vel gengur. Afkoma fyrirtækjanna skiptir íþróttahreyfinguna því miklu.
Margir Íslendingar nota erlendar veðmálasíður, sem eru í eigu fyrirtækja sem hafa ekki heimild til að starfa hér á landi og þar af leiðandi renna engir peningar frá þeim til íslenskra íþróttafélaga.
Talið er að Íslendingar verji um sjö milljörðum króna í veðmál á erlendum síðum en það þýðir að íslensk íþróttafélög verða af fjórum milljörðum.
Á erlendum síðum er hægt að veðja á úrslit íslenskra knattspyrnuleikja og er veltan þar allt að 1,5 til 2 milljarðar króna á dag. „Við erum kannski fyrst og fremst að hvetja íslenska tippara til þess að beina viðskiptum sínum til Íslenskra getrauna og Íslenskrar getspár og styrkja um leið íþróttastarf samhliða því að þeir spá í spilin,“ hefur Fréttablaðið eftir Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, varaformanni UMFÍ. Hann sagði einnig að íþróttahreyfingin vilji að ákvörðun verði tekin um starfsumhverfi veðmálasíðna og að fastar verði tekið á því að banna starfsemi erlendra síðna ef það verður leiðin sem fara á.