Annar lögreglumannanna hefur einnig verið kærður fyrir að hafa stungið fingri niður í fíkniefni, sem var á diski á sama vettvangi og fyrrnefnt lík fannst á, og síðan upp í sig og sagt að hér væri um kókaín að ræða.
Þetta kemur fram í skýrslu frá Den Uafhængige Politiklagemyndighed (DUP) sem rannsakar öll mál þar sem grunur leikur á að lögreglumenn hafi brotið af sér í starfi.
Meðal annarra mála sem DUP var með til meðferðar á síðasta ári var brot á þagnarskyldu. Tveir lögreglumenn eru enn til rannsóknar í því máli en á opinberum fundi, þar sem þeir héldu fyrirlestur, birtu þeir glærur þar sem nöfn, aldur, ljósmyndir og þjóðerni átta manns komu fram. Allt hafði fólkið komið við sögu í sakamálum sem var lokið.
Lögreglumaður misnotaði stöðu sína með því að nota lögregluskilríki sín til að fá uppgefna kennitölu nemanda í skóla þar sem sonur hans var einnig nemandi. Komið hafði til átaka á milli sonarins og hins nemandans. Hann var einnig kærður fyrir þjófnaði á handjárnum frá lögreglunni og að hafa notað þau til annars en verkefna lögreglunnar. Ríkissaksóknari féll frá ákæru þar sem lögreglumaðurinn hafði áður hlotið dóm í öðru máli og taldi saksóknari ekki líkur á að hann fengi þyngri refsingu þótt hann yrði sakfelldur fyrir fleiri brot.
Lögreglumaður fékk sekt fyrir of hraðan akstur eftir að handtekinn maður, sem var með honum í lögreglubifreiðinni, kvartaði undan akstri hans. Hann ók á 92 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km/klst. Lögreglumaðurinn vildi ekki greiða sektina og fer málið því fyrir dóm.