Wayne Rooney skoraði 253 mörk fyrir Manchester United og er einn allra besti framherji sögunnar en hann viðurkenndi í viðtali nýlega að hann þoli ekki að spila þá stöðu.
Leikmaðurinn tók þátt í samtali við Rio Ferdinand og Marcus Rashford á BT Sport en þá kom fram að honum hafi fundist skemmtilegra að taka meiri þátt í uppspili liðsins heldur en að spila sem nía.
„Þessi tvö tímabil (2008-9, 2009-10) spilaði ég einn frammi. Ég hafði áður gert það í einn og einn leik en þessi tvö ár gerði ég það í öllum leikjum,“ sagði Rooney á BT sport.
„Ég naut þess ekki að spila þá leiki. Ég hef alltaf viljað taka þátt í leiknum.“
„Ég naut þess alls ekki en þetta voru tvö bestu árin mín í markaskorun. Ég man eftir að ég labbaði af vellinum og sagði „þetta var hræðilegt, ég spilaði illa,“ þrátt fyrir að hafa skorað 2 mörk.“
„Það tók mig sjö eða átta ár að læra að spila þarna með bakið í markið. Þetta er erfiðasta staðan til að spila.“