Þann 29. apríl síðastliðinn var mikill fjöldi lögreglumanna að störfum í Rauðagerði. Lögregla var að sviðsetja morðið sem þar var framið í febrúar á þessu ári þegar Armando Beqirai var myrtur fyrir utan heimili sitt. Báðir endar götunnar voru lokaðir á meðan.
Greint var frá sviðsetningunni fljótlega eftir að hún fór fram, en ekki var mikið vitað í hverju slík sviðsetning felst. DV hefur nú fengið öruggar heimildir um að Angjelin Mark Sterkaj, sem hefur játað að hafa myrt Armando, hafi tekið þátt í sviðsetningunni. Þá segir heimildamaður DV að Angjelin hafi verið með plastbyssu og sýnt lögreglunni hvað hann gerði á verknaðarstund.
DV ræddi við Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um málið en hann staðfesti að Angjelin hafi verið á svæðinu. „Það hefur komið fram hjá okkur að þarna hafi verið að sviðsetja atburðinn við Rauðagerði. Sakborningurinn var á staðnum, einn sakborninganna.“
Margeir var þá spurður hvort Angjelin hafi verið með plastbyssu í sviðsetningunni. „Já við erum ekki að láta menn fá vopn í svona, það segir sig vonandi sjálft.“