Manchester United hefur staðfest nýjan samning Edinson Cavani við félagið, samningurinn gildir til sumarsins 2022. Cavani kom til United síðasta haust á frjálsri sölu og framherjinn hefur slegið í gegn þegar hann hefur verið leikfær.
Cavani hefur raðað inn mörkum síðustu vikur en framherjinn frá Úrúgvæ er 34 ára gamall og hefur raðað inn mörkum allan sinn feril. Nýr samningur Cavani gildir í ár til viðbótar en eftir það er talið að framherjinn haldi til Suður-Ameríku til að klára feril sinn.
„Ástæða þess að ég framlengdi samning minn, er bara sú að ég sé hvað félagið stendur fyrir. Hvað Manchester United er sem félag er ástæða þess,“ sagði Cavani.
„Þetta er félagið sjálft en líka félagið á bak við tjöldin og auðvitað stuðningsmenn okkar.“
„Með hverjum deginum tengist ég félaginu betur og hef nú sterkar tilfinningar til þess. Þú skapar samband við liðsfélaga þína og við alla þá sem tengjast félaginu. Það varð til þess að ég framlengdi.“