Í Washington D.C. hafa 37% íbúa í Barnaby Woods, sem er hverfi vel stæðs fólks í vesturhluta borgarinnar, lokið bólusetningu en í austurhluta borgarinnar, þar sem meirihluti íbúanna er svartur og hefur lágar tekjur, er staðan allt önnur. Í mörgum hverfum í austurhluta borgarinnar hafa aðeins 10 til 12% lokið bólusetningu samkvæmt tölum frá borgaryfirvöldum.
Í vesturhluta borgarinnar hafa um 80% af íbúum 65 ára og eldri verið bólusettir í mörgum hverfum en í austurhlutanum hafa um 40 til 45% íbúa í þessum sama aldurshópi verið bólusettir.
Ekki hefur skort á hvatningu til borgarbúa um að láta bólusetja sig og hið flókna bókunarkerfi borgarinnar er þannig sett upp að íbúar í fátæku hverfunum njóta forgangs í bólusetningu en samt sem áður eru þeir tregir til að láta bólusetja sig. Kamala Harris, varaforseti, heimsótt fyrr á árinu bólusetningamiðstöð í austurhlutanum til að hvetja fólk til að láta bólusetja sig. „Ég lofa ykkur því og segi ykkur að þetta bóluefni er öruggt. Það mun bjarga lífi þínu og lífum í fjölskyldu þinni og samfélaginu. Þetta er í okkar valdi,“ sagði hún þá meðal annars.
En það er víðar en í borgunum sem gengur illa að fá svart fólk til að mæta í bólusetningu. Í minnst 44 af ríkjunum 50 er hlutfall svartra, sem hafa verið bólusettir, undir meðaltalinu. Þetta kemur fram í greiningu Kaiser Family Foundation sem er hugveita sem einbeitir sér að heilbrigðismálum. Þetta vekur miklar áhyggjur því miklu fleiri svartir hafa hlutfallslega látist af völdum COVID-19 en fólk af öðrum kynþáttum. Í Washington D.C. eru um 46% íbúanna svartir en þegar dánartölur af völdum COVID-19 eru gerðar upp eru svartir 75% hinna látnu.
Sama staða er uppi meðal spænskumælandi Bandaríkjamanna og einnig að hluta meðal hvítra dreifbýlisbúa en hjá þeim er hægt að greina efasemdir, byggðar á pólitískum grunni, um bólusetningarnar. Margir íhaldssamir fjölmiðlar, til dæmis Fox News, hafa ýtt undir þessar efasemdir þeirra og viðhalda þeim með því að birta staðlausar fréttir um að bóluefnin hafi orðið mörg þúsund manns að bana.